Haukur Ingi Jónasson

Annar eigenda NCG ráðgjafar

Haukur Ingi, annar eigenda Nordica ráðgjafar er fæddur árið 1966. Hann lauk cand. theol.-prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands og doktorsgráðu í geðsjúkdómafræðum og trúarbrögðum (Psychiatry and Religion) frá Union Theological Seminary (sem er í samstarfi við Columbia University) í New York. Hann hlaut klíníska þjálfun sem sjúkrahúsprestur á Lennox Hill Hospital/The HealthCare Chaplaincy Inc. og hefur lokið klínísku námi í sálgreiningu frá The Harlem Family Institute í New York. Hann er ásamt Helga Þór Ingasyni höfundur að bókunum Leiðtogafærni, Samskiptafærni, Stefnumótunarfærni og Skipulagsfærni. Haukur starfaði sem lektor við verkfræði- og náttúruvísindavið Háskóla Íslands um árabil en er nú lektor við Háskólann í Reykjavík og er ásamt Helga forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnun (MPM) við skólann. Hann hefur kennt fjölda námskeiða, meðal annars í Háskóla Íslands, við Háskólann á Bifröst og Listaháskóla Íslands. Hann er í rannsóknarsamstarfi við The Cooper Union for the Advancement of Sciences and the Arts í New York.

Helstu rannsóknarsvið Hauks eru skipuheildarfræði, þróun skipuheilda, samskipti, samningagerð, deilustjórnun, aflfræði hópa, sálaraflsfræðilegar kenningar, sálgreining og tengsl hennar við aðra strauma og stefnur innan sál-, tauga- og geðlæknisfræða, æðri hugsun, siðfræði og hagnýting hugvísinda í verkvísindalegu samhengi. Hann er annar eigandi Nordica ráðgjafar ehf. og sinnir ráðgjöf á hennar vegum.

Haukur er þekktur sem fyrirlesari bæði á Íslandi og erlendis. Hann fjallgöngumaður og meðlimur í Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Nánari upplýsingar um Hauk má finna hér: www.academia.edu

Netfang Hauks Inga er haukur hjá ncg.is

Helgi Þór Ingason

Annar eigenda Nordica ráðgjafar

Helgi Þór, annar eigenda Nordica ráðgjafar, er fæddur árið 1965. Hann er með doktorsgráðu í framleiðsluferlum í stóriðju frá Tækniháskólanum í Þrándheimi, MSc í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og SCPM í verkefnastjórnun frá Stanford University. Hann hefur aflað sér alþjóðlegrar vottunar sem verkefnastjóri (Certified Senior Project Manager). Helgi Þór er forstöðumaður og leiðandi fyrirlesari í MPM-námi við Háskólann í Reykjavík sem er fjögurra missera meistaranám í verkefnastjórnun. Helgi Þór hefur kynnt rannsóknir sínar á ráðstefnum og í ritrýndum tímaritum. Hann er meðhöfundur sex bóka um verkefnastjórnun, vöruþróun, gæðastjórnun og siðfræði verkefnastjórnunar. Helgi Þór var áður forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og dósent við Háskóla Íslands. Hann er í rannsóknarsamstarfi við The Cooper Union for the Advancement of Sciences and the Arts í New York.

Helstu rannsóknarsvið Helga eru verkefnastjórnun, gæðastjórnun, siðfræði verkefnastjórnunar, kvik kerfislíkön, orkuinnviðir og orkukerfi framtíðar. Nánari upplýsingar um Helga Þór má finna hér: www.academia.edu

Helgi er þekktur sem fyrirlesari bæði á Íslandi og erlendis. Í frítíma sínum spilar Helgi á píanó og harmónikku, meðal annars með hljómsveitunum Kólgu og South River Band en einnig við flutning á eigin tónlist.

Netfang Helga Þórs er helgi hjá ncg.is